Flokkun í anda hringrásarhagkerfis


Í samræmi við áherslur og markmið Sóknaráætlunar 2020- 2024 var samþykkt að ráðast í áhersluverkefni í úrgangsmálum árið 2022. Verkefnið hefur verið unnið með fjárstuðningi frá Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu.

Markmið:

Að bæta nýtingu auðlinda og draga úr magni úrgangs til förgunar

Verkefnislýsing

Tilgangurinn með verkefninu er að draga verulega úr því magni úrgangs sem fer til förgunar frá aðilum á Vesturlandi. Lögð verður megináhersla á að greina tækifæri til að bæta úrgangsstjórnun hjá fyrirtækjum á svæðinu, enda er áætlað er að um 80% úrgangs á Vesturlandi komi frá fyrirtækjum. Áhersluverkefnið var tengt þeim breytingum á lögum um meðhöndlun úrgangs sem tóku gildi í janúar 2023. Í verkefninu verður m.a. lögð áhersla á að greina tækifæri til bættrar meðhöndlunar lífræns úrgangs, en þessi úrgangsflokkur er enn stór hluti þess sem fer til urðunar í Fíflholtum. Lífrænn úrgangur er jafnframt sá úrgangsflokkur sem hvað auðveldast er að koma í endurvinnslu, hvort sem er í nærumhverfinu eða fjær.

SSV í samstarfi við Sorpurðun Vesturlands stóð fyrir ráðstefnu um úrgangsmál fyrir sveitarfélög á Vesturlandi þann 14. nóvember 2022 þar sem rætt var um þær áskoranir sem fylgdu breytingum á úrgangslöggjöfinni. Á þeirri ráðstefnu og í samtölum við forsvarsmenn sveitarfélaga á Vesturlandi kom fram ósk þeirra um ráðgjöf og samstarf um innleiðingu nauðsynlegra breytinga í úrgangsþjónustu sveitarfélaganna. Þá var talsverð umræða um meðhöndlun dýraleifa, enda ekki til staðar í landinu farvegur til meðhöndlunar þess háttar úrgangs, þannig að kröfur laga séu uppfylltar.

Með hliðsjón af umræðum á ráðstefnunni í nóvember var ákveðið að útvíkka áherslur verkefnisins og því er áhersluverkefnið tvíþætt; a) ráðgjöf fyrir sveitarfélög vegna innleiðingar breytinga í úrgangsþjónustu og b) ráðgjöf til rekstraraðila um úrgangsstjórnun, með áherslu á lífrænan úrgang.

Gerður var samningur við Stefán Gíslason hjá Environice ehf. um ráðgjöf í verkefninu.

A. Ráðgjöf fyrir sveitarfélög

Áhersluverkefnið gerir sveitarfélögum á starfssvæði SSV mögulegt að leita til ráðgjafa á vegum samtakanna um innleiðingu á nýjum lausnum í flokkun og meðhöndlun úrgangs í samræmi við áherslur hringrásarhagkerfisins og breytingar á lögum um úrgangsmál. Meðal þeirra breytinga voru frekari sérsöfnun við húsvegg, fleiri úrgangsflokkar, útfærsla grenndarstöðva og breytingar á samþykktum og gjaldskrám sveitarfélaga. Einnig var óskað eftir að ráðgjafi skrifaði minnisblað um meðhöndlun dýraleifa, en eins og staðan er í dag er ekki til staðar á Íslandi farvegur sem uppfyllir skilyrði laga um ráðstöfun þessa úrgangsflokks.

Skjöl til að tengja við:
Minnisblað um ráðstöfun dýraleifa
Athugasemd um minnisblað um ráðstöfun dýraleifa
Minnisblað um nokkra þætti úrgangsmála

B. Ráðgjöf til rekstraraðila um úrgangsstjórnun
Sérsöfnun lífúrgangs frá heimilum er hafin í flestum sveitarfélögum á svæðinu, en minna hefur verið gert til að nýta þær auðlindir sem felast í lífrænum úrgangi frá fyrirtækjum, svo sem matvöruverslunum, matvælavinnslum og veitingastöðum. Í þessu felast tækifæri sem verkefninu er ætlað að virkja.

Í þessum hluta áhersluverkefnisins verður rekstraraðilum á Vesturlandi, þar sem ætla má að mikið falli til af lífrænum úrgangi, boðið til samstarfs við að greina leiðir til úrbóta í úrgangsstjórnun. Fyrirtækin verða heimsótt, meðhöndlun úrgangs kortlögð og leiðbeint um leiðir til úrbóta, í samvinnu við þjónustuaðila sem annast úrgangsþjónustuna á hverjum stað. Ráðgjafi er Stefán Gíslason hjá Environice ehf. Áætlað er að verkefnið sé unnið í eftirfarandi verkþáttum:

1. Kortlagning fyrirtækja á Vesturlandi þar sem líklegt þykir að mest falli til af lífrænum úrgangi, (svo sem matvöruverslanir, matvælavinnslur og veitingastaðir). Auglýst eftir áhugasömum þátttakendum.
2. Samskipti við 12 valin fyrirtæki á Vesturlandi (sbr. tl. 1), þar sem fyrirtækjunum verður boðið til samstarfs við að greina leiðir til að bæta nýtingu lífræns úrgangs sem fellur til hjá þeim.
3. Heimsóknir til fyrirtækja (sbr. tl. 2), þar sem, meðhöndlun úrgangs (lífræns úrgangs og annars) verður kortlögð og leiðbeint um leiðir til úrbóta, bæði hvað varðar flokkun á staðnum og ráðstöfun þess úrgangs sem flokkaður verður. Þessi verkhluti verður eftir atvikum unninn í samvinnu við þjónustuaðila sem annast úrgangsþjónustuna á hverjum stað.
4. Ráðgjöf til fyrirtækjanna að loknum heimsóknum til að fylgja eftir og leiðbeina um þær aðgerðir sem fyrirtæki ákveða að ráðast í. Þessi ráðgjöf fer einkum fram í gegnum síma eða með rafrænum samskiptum. Ráðgjöfin miðast við ákveðinn hámarksstundafjölda fyrir hvert fyrirtæki.
5. Hvert fyrirtæki fær samantekt ráðgjafa að verkefninu loknu.

Gert er ráð fyrir að þessi hluti áhersluverkefnisins verði unninn á haustdögum 2023; heimsóknir ráðgjafa fari fram í september og í framhaldi af þeim unnið að tillögum til breytinga og samantekt send þátttökuaðilum fyrir lok nóvember.

Að loknu samstarfi við valin fyrirtæki er gert ráð fyrir að haldnir verði almennir kynningarfundir fyrir almenning og rekstraraðila, enda er gert ráð fyrir að verkefnið skili mikilvægum upplýsingum sem nýtast munu öðrum aðilum til að bæta úrgangsstjórnun. Með hliðsjón af þeim lærdómi sem draga má af verkefninu verður fræðsluefni miðlað til íbúa og fyrirtækja um mikilvægi flokkunar, endurvinnslu og bættrar auðlindanýtingar.

Verkefninu í heild sinni verður lokið fyrir árslok 2023.